Fjölskyldusvið

  • Fjölskyldusvið

Fjölskyldusvið

Fjölskyldusvið fer með framkvæmd þeirra mála er lúta að félagslegri þjónustu bæjarins og barnavernd. 


Helstu verkefni á fjölskyldusviði

Fjölskyldusvið fer með framkvæmd þeirra mála er lúta að félagslegri þjónustu bæjarins og barnavernd. Til félagslegrar þjónustu teljast m.a. félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, félagsleg heimaþjónusta, málefni barna og ungmenna, málefni aldraðra, málefni fatlaðs fólks og húsnæðismál. 

Forstöðumaður sviðsins er Bergljót Sigurbjörnsdóttir félagsmálastjóri.

Helstu verkefni 2017

  • Samningur um að Hrafnista tæki við rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ var undirritaður í janúar af þeim Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar og Guðmundi Hallvarðssyni, stjórnarformanni Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistu. Samkvæmt samningnum tók Hrafnista við rekstri Ísafoldar, hjúkrunarheimilis frá 1. febrúar 2017. Samningurinn var samþykktur einróma á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar.

  • Fjölskyldusvið Garðabæjar í samstarfi við fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar bauð upp á PMTO foreldrafærninámskeið haustið 2017.  Foreldrar í Garðabæ gátu sótt um þátttöku í námskeiðinu sem var ætlað fyrir foreldra barna 4-12 ára. Á námskeiðinu voru kenndar aðferðir við að draga úr hegðunarerfiðleikum barna og leiðir til að stuðla að góðri aðlögun barna með því að nota skýr fyrirmæli o.fl.

  • Jónshús, félagsmiðstöð eldri borgara, hélt upp á 10 ára afmæli sitt 5. október. Í afmælisveislunni var stefnu í málefnum eldri borgara dreift en stefnan hafði þá nýlega komið út í prentuðum bæklingi.

  • Aðgerðaráætlun fyrir stefnu í málefnum eldri borgara í Garðabæ sem gildir fyrir árin 2017-2020 var kynnt á árinu. 

  • Fimmtudaginn 2. nóvember var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Unnargrund í Garðabæ.  Um er að ræða búsetukjarna með sex íbúðum fyrir fatlað fólk ásamt starfsmannarými. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúar flytji inn vorið 2019.