Ávarp bæjarstjóra

  • Gunnar Einarsson

Ávarp bæjarstjóra

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir frá hápunktum ársins 2017 og sterkri fjárhagsstöðu bæjarins.


Ágætu Garðbæingar

Niðurstöður ársreiknings Garðabæjar sýna ekki aðeins sterka fjárhagsstöðu bæjarins heldur staðfesta einnig hversu eftirsóttur bærinn er til búsetu.

Rekstarafgangur ársins 2017 nemur 1.153 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 520 millj. kr. Veltufé frá rekstri nam 2.215 millj. kr. sem er um 16% í hlutfalli við rekstrartekjur.

Eftirsótt búseta

Þessi góða rekstrarafkoma á árinu 2017 skýrist fyrst og fremst af fjölgun íbúa umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun. Garðabær er eftirsóttur til búsetu og spila þar eflaust saman ólíkir þættir. Garðabær er staðsettur á miðju höfuðborgarsvæðinu en þrátt fyrir það er stutt í fjölbreytt náttúru- og útivistarsvæði sem mörg hver eru friðuð til framtíðar. Bæjarstjórn Garðabæjar leggur áherslu á góða þjónustu við íbúa á öllum aldri og má þar nefna að öllum börnum sem náð hafa 12 mánaða aldri að hausti er boðin leikskóladvöl.

Í árslok 2017 voru íbúar Garðabæjar 15.700 og hafði fjölgað um 3% en áætlun gerði ráð fyrir 1,5% fjölgun, íbúafjölgunin hafði í för með sér umtalsverða hækkun skatttekna.

Rekstur allra málaflokka er í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun eins og rekstrarniðurstaða gefur til kynna og til marks um það þá eru samanlögð útgjöld þriggja stærstu málaflokkanna þ.e. félagsþjónustu, fræðslumála og æskulýðs- og íþróttamála 9.424 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 9.367 millj. kr. færi til þessara málaflokka og er frávik innan við 1%

Helstu fjárfestingar

Fjárfestingar á árinu 2017 námu rúmlega 2.940 millj. kr. og hafa aldrei verið meiri.  Helstu framkvæmdir voru við íþróttamannvirki sem námu samtals um 1.082 millj. kr. Vega þar þyngst framkvæmdir við endurbætur á Ásgarðslaug. Byggingarkostnaður Urriðaholtsskóla nam 650 millj. kr. og 559 millj.kr. fóru til kaupa á Vífilsstaðalandi. Einnig var farið í gatnaframkvæmdir og ýmsar aðrar smærri framkvæmdir. Í maí var lokið við síðari áfanga í uppbyggingu nýrrar göngu- og hjólaleiðar milli byggðar og friðlands Vífilsstaðavatns þegar stígurinn var malbikaður. Stígurinn er mikil samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og tengir vel saman byggða hluta Garðabæjar og friðlandið við Vífilsstaðavatn sem er afar vinsælt útivistarsvæði.

Sundlaugin við Ásgarð var opnuð að nýju á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 2018, eftir gagngerar endurbætur og leikskóladeild hóf starfsemi í Urriðaholtsskóla í byrjun apríl.

Grunnskólar

Í grunnskólum í Garðabæ eru alls rúmlega 2500 börn í 1.-10. bekk skólaárið 2017-2018. Þar af eru um 210 börn í 1. bekk.  Að auki eru um 70 börn í 5 ára bekkjum í Flataskóla og í Barnaskóla Hjallastefnunnar að Vífilsstöðum. Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í ágúst 2017 að greiða fyrir þau námsgögn sem nemendur í grunnskólum bæjarins nota í starfi skólanna. Heildarkostnaður við verkefnið var um 12,5 milljónir króna.

Aðalskipulag

Einn af stærstu áföngum ársins var þegar tillaga að aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 ásamt umhverfisskýrslu var auglýst 8. maí 2017 samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Áður en athugasemdafrestur rann út höfðu á sjötta tug athugasemda borist sem sýnir vel hversu áhugasamir Garðbæingar eru um sitt nærumhverfi og sveitarfélagið. Nýtt aðalskipulag Garðabæjar var svo staðfest með undirritun í byrjun apríl á þessu ári.

Einnig er vert að nefna að bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum 6. apríl að leggja fram tillögu til mennta- og menningarráðherra um að Garðahverfi yrði gert að verndarsvæði í byggð, sbr. 4. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti tillöguna um að Garðahverfi yrði verndarsvæði í byggð í lok október á síðasta ári.

Íbúasamráð

Bæjarstjórn Garðabæjar leggur þunga áherslu á samráð og samtal við íbúa. Á árinu 2017 voru haldnir íbúafundir, m.a. um skipulagsmál, skólamál og íþrótta- og tómstundamál. Þá var leitað til íbúa um ábendingar við gerð fjárhagsáætlunar 2018 svo eitthvað sé nefnt.

Sumarið er framundan og það er vissulega bjart yfir bænum okkar í fyrirsjáanlegri framtíð. Kæru Garðbæingar, við skulum njóta augnabliksins um leið og við hlökkum til betri tíðar með blómum í haga.

 

Gleðilegt sumar,
Gunnar Einarsson,
bæjarstjóri